logo
  • Samkennd -
  • Samvinna -
  • Heiðarleiki

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn - Skólahornið

02/10/18

Í samfélagi okkar í dag er mikill hraði á öllu. Þétt dagskrá og langir vinnudagar eru raun-veruleiki margra fjölskyldna. Skóladagur nemenda er langur en mikill metnaður er í skólakerfinu til að gera vel þannig að hvert barn fái notið sín í leik og starfi.
Aðkoma foreldra að skólum hefur aukist mikið. Fyrir ekki svo löngu komu foreldrar aðeins í skólana tvisvar á ári til að hitta kennara og heyra um námsframvindu síns barns. Í dag er mikið lagt upp úr samvinnu foreldra og skóla og fjölbreyttir viðburðir og fundir eru haldnir með foreldrum. Árið 2008 voru sett lög um að í hverjum skóla skuli vera skólaráð sem meðal annars á að taka þátt í stefnumörkun skólans og vera samráðsvettvangur skólans og skólasamfélagsins. Í skólaráði sitja auk skólastjóra tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags.
Allt þetta samstarf skóla og heimila er af hinu góða en leggur líka mikla ábyrgð á allra herðar. Til þess að börn fái notið góðrar skólagöngu og líði vel í skólanum þurfa þau að hafa jákvætt viðhorf til skólans. Ef foreldrar tala vel um skólann, hafa áhuga á því sem þar fer fram og hvetja börnin sín áfram eru miklar líkur á að barnið verði jákvætt gagnvart skólanum.
Allir eiga rétt á að fá nám við hæfi. Nemendur eru ólíkir og læra á mismunandi hátt. Kennarar eru sérmenntaðir til kennslu og foreldrar þurfa að treysta þeim til að finna námsleiðir sem best henta hverjum nemanda. Síðast en ekki síst þarf samtalið milli foreldra og kennara að vera uppbyggilegt og þegar upp kemur ágreiningur þarf hann að leysast milli þeirra fullorðnu án aðkomu eða vitneskju barnanna.
Vinnum saman að því að hvert barn fái notið sín í skólanum og geti orðið besta útgáfan af sjálfu sér.

Rósa Ingvarsdóttir, skólastjóri Helgafellsskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira