logo
  • Samkennd -
  • Samvinna -
  • Heiðarleiki

Leikskóladeild

Opnunartími

Opnunartími er mánudaga til föstudaga frá kl. 7:30 til kl. 16:30. Símanúmer Helgafellsskóla er 547-0600. Símanúmer leikskóladeilda  er:

 Æsustaðafjall  s: 626-2518

Lágafell s: 626-2517

Sauðhóll s: 626-2516

Helgafell s: 620-4510

Upplýsingabækling leikskóladeildar má finna hér.

Amennar upplýsingar um málefni leikskóla Mosfellsbæjar er hægt að finna hér.

Gjaldskrá leikskóla

Gjaldskrá leikskóla Mosfellsbæjar má finna hér

 Aðlögun

Að byrja í skóla er ný reynsla fyrir barn og foreldra. Umhverfið er nýtt, allt framandi og ókunnugt. Því er mikilvægt að vanda vel til og gefa barninu þann tíma sem það þarf. Aðlögun er einnig tækifæri fyrir foreldra, til að kynnast starfsfólki skólans, starfseminni og öðrum börnum og foreldrum. Með aðlögun er grunnur lagður að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og skóla. Það tekur börn mislangan tíma að aðlagast nýjum aðstæðum og þarfir þeirra geta verið ólíkar. Við munum vinna með hópa í aðlögun þar sem nokkur börn fá aðlögun í einu en þó er aðlögun eftir þörfum hvers og eins

Foreldrar þekkja börnin sín best og geta oft gefið skólanum góð ráð um hvernig gott er að nálgast barnið þeirra. Þá hvetjum við foreldra til að nýta sér útisvæði skólans og kynna það fyrir barninu eins og kostur er. Það eykur á öryggi og styrkir aðlögunina. Börn sem hafa verið á öðrum leikskóla og eru að flytja sig um set þurfa alla jafna mismikla aðlögun og er hún unnin í samráði skóla og foreldra.

Kveðjustundir í fataklefa

Ef kveðjustundir verða of langar getur það skapað óöryggi hjá barninu sem veit ekki nákvæmlega hvort mamma eða pabbi ætla að stoppa í fataklefanum eða ekki. Vegna þessa hvetjum við foreldra til að hafa kveðjustundirnar stuttar, öruggar en fullar af trausti. Munum að kveðjustundin lengir ekki jákvæða samveru fjölskyldunnar heldur lengir á skilnaðarstund sem getur verið barninu erfið.

 Dót að heiman

Allt dót að heiman á að vera heima. Ef barn kemur með dót að heiman skapar það óþægindi bæði fyrir hin börnin og kennarana. Gott er að barnið venjist því strax í byrjun að dót á að vera heima.

 Veikindi og fjarvistir

Mikilvægt er að veikindi séu tilkynnt. Við getum ekki tekið á móti veikum börnum eða börnum sem eru að veikjast. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindunum heima og mæti aftur í skólann frískt og tilbúið að taka þátt í daglegri starfsemi úti sem inni.  Börnum er ekki gefin lyf í leikskólanum nema brýna nauðsyn beri til. Veikist barn eða slasast í skólanum er strax haft samband við foreldra.

Ef barn er með fæðuóþol eða ofnæmi þarf að skila inn læknisvottorði frá viðeigandi sérfræðingi.

 Svefn og hvíld

Svefn og hvíld er barni nauðsynleg ekki síst á fyrstu árum ævinnar þegar vöxtur og þroski er sem mestur. Þreytt barn á erfitt með að takast á við daginn í skólanum. Hvíldartími er eftir hádegismatinn þar sem allir eiga rólega stund saman.

 Útivera og útbúnaður

Helgafellsskóli er staðsettur við dásamlega ósnortna náttúru. Skólalóðin er vel hönnuð og  búin góðum tækjum fyrir börn á leikskólaaldri. Markmið okkar er að njóta útiveru og tryggja að börnin alist upp við að útivist sé hluti af daglegu lífi. Fatnaður barna þarf að vera í samræmi við veðurfar.

Skólinn er vinnustaður barnanna og því mikilvægt að þau komi í þægilegum vinnufatnaði sem þolir hnjask og óhreinindi. Þá er nauðsynlegt að merkja allan fatnað vel.

Á mánudögum er gott að koma með fatnað fyrir vikuna og tæma fatahólfin á föstudögum.

 Sumarfrí

Mosfellsbær býður upp á sumarskóla í júlí en leikskóladeild Helgafellsskóla er lokuð í 20 virka daga þann tíma. Öll börn þurfa að taka samfellt sumarleyfi í fjórar vikur eða í a.m.k. 20 virka daga, á orlofstímabilinu 15. maí - 31. ágúst. Skila þarf sumarleyfisóskum fyrir 15. mars ár hvert til skólans vegna skipulagningar sumarleyfa.

Á heimasíðu Mosfellsbæjar mos.is má finna upplýsingar um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir í leikskólum. Þar má meðal annars finna upplýsingar um verðskrá, breytingu á dvalartímum, afslætti fyrir einstæða foreldra, öryrkja og námsmenn sem er hægt að sækja um inn á íbúagátt, mínar síður. 

Upplýsingasíða skólans: http://bit.ly/helgafellsskoli

Vinsamlega athugið að það þarf alltaf að fylgja barninu inn í skólann og inn á svæði barnsins.

Láta þarf starfsfólk vita þegar barnið kemur og þegar það er sótt.

Mikilvægt er að börn séu sótt á réttum tíma. Ef einhver annar en foreldrar eiga að sækja barnið verður að láta starfsfólk skólans vita.

Aðeins þeir sem verða 12 ára á árinu og eldri mega sækja börn í skólann.

Fræðsluefni frá embætti landlæknis

Embætti landlæknis hefur gefið út fjögur fræðslumyndbönd fyrir foreldra leikskólabarna og fólk sem starfar með börnum í leikskólum. Myndböndin eru liður í Lýðheilsustefnu frá 2016 þar sem ein aðgerð felst í því að búa til fræðsluefni um hvíld, skipulagða hreyfingu, útivist, næringu og geðrækt barna í leikskólum. Kallað var saman fagfólk úr vinnuhópi Heilsueflandi leikskóla sem ásamt sérfræðingum embættisins ákváðu að fara þá leið að gera fræðslumyndbönd sem mætti deila víða. Lögð var áhersla á að myndböndin væru aðgengileg og á léttum nótum, leikin og talsett af börnum en fram kæmu ákveðin lykilskilaboð, sem byggja á rannsóknum, í hverju þeirra.

Yfirheiti myndbandanna er „Vellíðan leikskólabarna“ og má skoða þau á Facebook síðu Heilsueflandi leikskóla sem og á Youtube síðu embættis landlæknis. Hægt er að stilla á íslenskan, enskan og pólskan texta.

Vellíðan leikskólabarna – svefn og hvíld

Vellíðan leikskólabarna – næring og matarvenjur

Vellíðan leikskólabarna – hreyfing og útivera

Vellíðan leikskólabarna – hegðun og samskipti

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira