logo
 • Samkennd -
 • Samvinna -
 • Heiðarleiki

Stefnur og áætlanir

Jafnréttisstefna Helgafellsskóla byggir á hugmyndafræðinni sem kemur fram í  jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar. Þar er m.a. tekið fram að hlutverk skóla í jafnréttismálum sé mikilvægt :

Menntun og uppeldi 

a. Taka skal tillit til ólíkra þarfa allra nemenda þegar kemur að skipulagi kennslu og framsetningu námsefnis. 

b. Fræðsla um jafnréttismál skal veitt á öllum skólastigum. 

c. Starfsfólk á öllum skólastigum skal fá viðeigandi fræðslu og þjálfun til að búa nemendur af báðum kynjum undir þátttöku í jafnréttis- og lýðræðisþjóðfélagi. 

d. Markvisst skal unnið að afnámi staðalímynda. 

e. Kynjasjónarmiða skal gætt við skipulag náms og framsetningu kennsluefnis. 

f. Tekið skal mið af kynjasjónarmiðum við skipulag og framkvæmd frístundastarfs.

 g. Þess skal gætt á öllum skólastigum að foreldrar af báðum kynjum og óháð forræði barna hafi jafnan aðgang að upplýsingum sem varða barnið.

Fari brunaviðvörunarkerfið í gang skal unnið samkvæmt eftirfarandi rýmingaráætlun.

1.     Umsjónarmaður fasteigna og skólastjóri eða staðgenglar, fara að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis, slökkva á hringingu, aðgæta hvaðan brunaboðið kemur og kanna nánar hvað um er að vera.

2.     Starfsmenn skólans og nemendur haldi kyrru fyrir í því rými sem þeir eru staddir í og bíði rólegir frekari fyrirmæla.

3.     Fari brunakerfi aftur í gang og hringing er stöðug í meira en 10 sek. skal rýma skólann.

4.     Kennarar undirbúa rýmingu í kennslustofu. Nemendur fara út um þær dyr sem eru næstar kennslurými ef leiðin er greið. Áríðandi er að kennarar muni að hafa meðferðis nafnalista bekkjarins og lesi upp þegar komið er á söfnunarsvæði.

5.     Umsjónarmaður fasteigna/skólastjóri eða staðgenglar, hafa samband við slökkvilið í síma 112 og tilkynna um eld eða gefa skýringar á brunaboðinu ef ekki er um eld að ræða.

Þegar út er komið safnast allir saman á söfnunarsvæði sem er fótboltavöllurinn fyrir grunnskóladeild og við útihús á leiksvæði fyrir leikskóladeild.

                                                     

                                                       

Nemendur fara í beinar raðir eftir árgöngum. Kennarar fara yfir nafnalista og aðgæta hvort öll börnin hafi komist út. Ef allir eru til staðar skal grænu spjaldi lyft upp. Ef svo er ekki er rauðu spjaldi lyft upp. Enginn má yfirgefa söfnunarsvæðið nema að fengnu leyfi rýmingarstjóra.

Þeir starfsmenn sem ekki hafa ákveðið hlutverk safnist saman við enda gervigrasvallar og við útihús á leikskólalóð. Starfsmenn sem ekki bera ábyrgð á nemendahóp hjálpa til þar sem þörf er á.

6.     Skólastjórnandi fer á milli hópa og fær upplýsingar um hvort öll börnin hafa skilað sér með hópnum út, ef ekki þá kannar hann hvort þau voru mætt í skólann og þá hvar þau sáust síðast.

7.     Skólastjórnandi/umsjónarmaður fasteigna fer yfir hvort allt starfsfólk hafi skilað sér út.

8.     Slökkviliðið kemur á staðinn, skólastjóri gefur varðstjóra upplýsingar um hvort einhver börn hafa orðið eftir inni og hugsanlega staðsetningu þeirra.

9.     Sé veður slæmt er hringt eftir rútum til að fara með börnin inn í.

Sá aðili sem síðastur fer út úr hverri stofu skal loka hurð á eftir sér (ekki læsa) til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er. Muna að halda ró sinni og alls ekki hlaupa eða ryðjast á leið út.

Öryggisteymi

Í öryggisteymi skólans eru þrír starfsmenn:

·       Rósa Ingvarsdóttir, skólastjóri

·       Eiríkur Indriðason, umsjónarmaður fasteigna

·       Ellen Elsa Sigurðardóttir, ritari

Skólastjóri er rýmingarstjóri. Öryggisteymið mun vinna í samstarfi við slökkvilið um útfærslu á rýmingaráætlun Helgafellsskóla.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Áfallaáætlun Helgafellsskóla

Skilgreining á áfalli:
Hlutverk áfallateymis er m.a. að hafa verkstjórn við válega atburði, útbúa viðbragðsáætlun og kynna fyrir starfsfólki, meta aðstæður, standa að fræðslu um viðbrögð barna og fullorðinna við áföllum o.s.frv. Áfallateymi býr yfir viðbragðsáætlun sem farið er eftir við stór áföll.

Í áfallateymi Helgafellsskóla eiga sæti:
Skólastjóri, deildarstjórar, hjúkrunarfræðingur og námsráðgjafi.
Stuðningsaðilar áfallateymis eru sálfræðingur, læknir, lögregla, kennslufulltrúi og skólaritari.

Áföll geta verið:

 • Skyndileg alvarleg veikindi.
 • Skilnaður/missir.
 • Alvarleg slys/ofbeldi nemenda eða starfsmanna.
 • Andlát nemenda, foreldra eða systkina nemenda.
 • Andlát starfsmanns, maka eða barns starfsmanns.
 • Náttúruhamfarir hvers konar.
 • Óvæntir atburðir

Mikilvægt er að aðstandendur tilkynni öll áföll sem fyrst til umsjónarkennara, skólastjóra eða annarra í áfallateymi. Sá sem fær upplýsingarnar fyrst komi þeim til skólastjóra.

Skólastjóri lætur námsráðgjafa og hjúkrunarfræðing vita um áföll. Þessir aðilar meta hvort kalla skal áfallateymið saman.

Mörg áföll eru þess eðlis að óþarfi er að kalla áfallateymið saman á fund. Þau áföll geta engu að síður haft áhrif á einstaklinginn (hér er átt við t.d. skilnað foreldra, missi ömmu/afa eða annarra ættingja, ástarsorg o.fl.). Áfallateymið hefur þess vegna safnað saman fræðsluefni sem nýtist þeim sem hlut eiga að máli. Einnig geta þeir sem hlut eiga að máli leitað stuðnings hjá áfallateymi.

Áfallateymi er kallað saman við eftirfarandi áföll:

 • Alvarleg slys nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks
 • Alvarleg veikindi nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks
 • Andlát nemenda, aðstandenda þeirra, starfsfólks, maka eða barns starfsfólks
 • Langvinna sjúkdóma nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks

Ætið skal gæta fyllsta trúnaðar gagnvart skjólstæðingum.

Í upphafi hvers skólaárs fundar áfallateymið og fer yfir starfsreglur. Teymið hittist einnig í janúar og í lok skólaárs.

Ef alvarlegt slys eða áfall á sér stað í sumarleyfi eða öðru fríi er nauðsynlegt að kalla áfallateymi saman áður en nemendur og starfsfólk mæta aftur í skólann.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira