logo
  • Samkennd -
  • Samvinna -
  • Heiðarleiki

Foreldrasamstarf

Tengsl foreldra og skóla

Börn, foreldrar/forráðamenn og starfsfólk skólans mynda saman skólasamfélagið í Helgafellsskóla. Menntun og velferð barnanna er sameiginlegt verkefni heimila og skóla, en samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun (Aðalnámskrá grunnskóla).

Foreldrar eru ávallt velkomnir í skólann. Þeir geta fylgst með börnum sínum í leik og starfi í samráði við kennara skólans. Hvetjum við foreldra til að hafa samband við skólann vilji þeir afla sér upplýsinga eða koma upplýsingum á framfæri. Tölvupóstur er einnig þægilegt samskiptaform og má finna netföng starfsfólks á heimasíðu skólans.

Heimasíða skólans er ætluð til upplýsingamiðlunar. Foreldrar eru hvattir til að koma með virkum hætti að skólastarfinu, hvort heldur er í daglegum samskiptum þegar þau fylgja börnum sínum í skólann og sækja þau, eða í formlegri samvinnu í skólastarfinu.

Foreldrafélag og skólaráð eru fletir fyrir formlega samvinnu með þátttöku foreldra.

Markmið

Tilgangurinn með foreldrasamstarfi  í Helgafellsskóla, er að:

- veita foreldrum upplýsingar um það sem er að gerast í skólanum
- veita foreldrum upplýsingar um þroska barnsins og stöðu þess í skólanum
- afla upplýsinga um aðstæður og viðhorf foreldra  til uppeldis
- stuðla að þátttöku foreldra í skólastarfinu
- skapa umræðuvettvang fyrir skoðanaskipti um uppeldi barna (Heimild; aðalnámskrá leikskóla)

Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skólans vinni saman að því að skapa góða umgjörð um það starf sem fram fer í skólanum. Hlýja, gagnkvæmt traust og gagnkvæm og virk upplýsingagjöf þarf að vera til staðar í samskiptum foreldra og skóla til að tryggja sem best hagsmuni barnanna.

Foreldrar þekkja börnin sín best og er þekking þeirra á þroska og líðan barnanna lögð til grundvallar. Mestu máli skiptir nemendum líði vel í skólanum og að þau hafi tækifæri til að fást við viðfangsefni sem efla þau og veita þeim gleði.

Samskipti

Að hausti er haldinn náms- og kynningarfundur með foreldrum hvers árgangs. Kennarar kynna áætlanir sem liggja frammi um starfsemi skólans. Þeir kynna foreldrum bekkjarnámskrá, námsmatsáætlun og annað skipulag á skólastarfi. Foreldrum gefst færi á að ræða og koma með tillögur er varðar starfið. (Á þessum fundi kjósa foreldrar fulltrúa til setu í foreldrafélaginu.)

Tvisvar á ári eru foreldrar boðaðir í viðtal við kennara barnsins. Kennarar veita upplýsingar um hagi og stöðu barnsins í skólanum auk ýmissa hagnýtra upplýsinga. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn upplýsi skólann sem best um málefni  barnsins og greini frá þeim þáttum sem geta haft áhrif á líðan þess í daglegu starfi. Um persónuupplýsingar ríkir þagnaskylda.

Hvatt er til þess að foreldrar komi með virkum hætti að skólastarfinu með markvissum heimsóknum, þátttöku í starfi með börnunum og þátttöku í foreldrafélagi   eða foreldraráði.

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira