logo
  • Samkennd -
  • Samvinna -
  • Heiðarleiki

Skákkennsla í Helgafellsskóla

08/02/21

Helgafellsskóli mun í vetur bjóða uppá skákkennslu í öllum árgöngum skólans.

Til starfsins var ráðinn Tómas Rasmus sem er með áratuga reynslu af kennslu í skák, stærðfræði og raunvísindum. Tómas er einnig með svokallað „Fide national instructor gráðu“ í skákkennslu. Hann er nýfluttur í Mosfellsbæ.

Nokkrar rannskónir hafa verið gerðar á gildi skákkennslu og verður hér tæpt á helstu þáttum sem þær leiða í ljós. Þessir þættir nýtast einnig í hefðbundnu skólanámi og í lífinu sjálfu.

Námsgeta Námsgeta eykst með margvíslegum hætti hjá ólíkum hópum nemenda. Rannsóknir sýna sérstaklega aukna getu á sviði lestrar, lesskilnings og stærðfræði. Einbeiting Nemendur þjálfast í að einbeita sér að úrlausn verkefna innan tiltekins tímaramma. Þar sem skákin er leikur og krefst þess stöðugt af nemandanum að leika næsta leik – hver sá sem teflir beinlínis verður að leika einhverjum leik jafnvel þótt honum finnist hann “týndur” og ekkert vita hvað eigi að leika næst – þá þjálfast sjálfstæð og virk þátttaka nemandans við að finna lausn í stöðunni og taka ákvörðun. Þar sem næsti leikur á skákborðinu er í sífellu yfirvofandi hvetur það nemendur til að fylgjast með af áhuga og einbeita sér með skilvirkum hætti. Ímyndunarafl og sjónminni Nemendur þjálfast í að ímynda sér röð leikja og atburða áður en þeir eiga sér stað. Með þessu þjálfast ímynunarafl þeirra og hæfileiki til að sjá fyrir sér ólík atvik og mynstur í huganum. Skákin er með þessum hætti mjög myndræn og myndin þróast áfram í huga nemandans eftir því sem skákinni vindur fram. Þessi 8 þáttur skáklistarinnar er talinn tengjast sérstaklega aukinni hæfni nemenda í lestri, lesskilningi og stærðfræði og öðrum greinum þar sem tiltekin mynstur eru endurtekin.

Forsjálni – að hugsa fram í tímann Nemendur þjálfast í að hugsa áður en þeir leika og reyna að sjá fyrir sér afleiðingar eigin ákvarðana og hvernig þeir munu þá geta brugðist við. Með tímanum þjálfast nemendur í meiri þolinmæði og vandvirkni þar eð eina leiðin til að vinna í skák er að hugsa áður en leikið er. Í hverri skák fá nemendur fjöldann allan af verkefnum til að leysa, hvernig eigi að bregðast við mismunandi leikjum andstæðings, taka á fyrirsjáanlegum veikleikum, byggja upp eigin styrkleika og nýta til góðs. Skákin veitir umsvifalausa umbun eða refsingu fyrir réttar og rangar ákvarðanir og ýtir þannig enn frekar undir hraðara nám. Ákvarðanataka – að taka af skarið Nemendur þjálfast í að taka ákvörðun og taka af skarið þrátt fyrir stjarnfræðilega marga valkosti og endalausa möguleika á mismunandi leikjum og leikjaröðum í hverri stöðu. Ólíkt því þegar nemandi situr í prófi og gefst upp við að leysa stærðfræðidæmi þá er það nær óþekkt í skák að nemandi leiki ekki leik þegar taflið snýr að honum – í því felst m.a. máttur skákarinnar að nemandinn á alltaf leik og finnur sig knúinn til að leika þrátt fyrir innra óöryggi. Vanmáttakennd gagnvart úrlausnarefninu er ekki óalgeng – “ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að leika” – en samt þjálfast nemandinn í að taka af skarið og hafa nógu mikið sjálfsöryggi til að leysa verkefni hverrar stöðu á borðinu. Greining á úrlausnarefnum Nemendur þjálfast í að greina og meta ólíkar stöður á skákborðinu og þau margvíslegu úrlausnarefni sem þar er að finna í hverri stöðu. “Nú er skák á kónginn minn, hvert á ég að fara með hann? Nú er drottningunni minni hótað hvert er best að setja hana? Nú opnast fyrir kónginn hinum megin hvernig get ég nýtt mér það? Ég er peði undir en hvar liggja styrkleikar mínir í stöðunni og hvernig get ég gert sem mest úr þeim?” Í hverri stöðu í skák koma upp ný úrlausnarefni og mat á styrkleikum og veikleikum sem greina þarf rétt. Óhlutbundin hugsun Nemendur þjálfast með tímanum í að auðkenna tiltekin mynstur í einni

skákstöðu og yfirfæra þau yfir á annars konar landslag á skákborðinu. Nemendur þurfa ítrekað í hverri skák að fara á milli þess að hugsa um eitt, afmarkað svæði og einn taflmann yfir í að reyna að skilja skákborðið allt og bregðast við aðstæðum á mismunandi vígstöðvum. Þessi stöðugu stökk á milli nákvæmra smáatriða og heildarmyndar sem taflmennska krefst, sem og stökk á milli viðbragða við leik andstæðingsins og frumkvæðis eigin leikja, þjálfar óhlutbundna hugsun nemenda.

Áætlanagerð og strategía Nemendur þjálfast í að þróa langtímaáætlanir og markmið sem þeir síðan þurfa að greina niður í smærri skref einstakra leikja til að ná settu marki. Þeir þjálfast einnig í að endurmeta áætlanir sínar og strategíur eftir því sem landslagið á skákborðinu breytist. Slíkt kallar á opna og víðsýna en jafnframt agaða nálgun á viðfangsefnið. Fjölþættar lausnir og þrautseigja Nemendur þjálfast í að festast ekki í einni hugsun heldur að leita stöðugt nýrra leiða og lausna við að takast á við aðstæður. Þeir þurfa að halda einbeitingu og ró þegar óvæntir leikir og aðstæður koma upp á taflborðinu og ýmsar hindranir vakna sem koma í veg fyrir að auðvelt sé að ná settu marki. Í nánast hverri skák snýst taflið við og nemendur gera mistök sem þeir sjá eftir en þjálfast í að gefast ekki upp heldur hafa trú á að þeir geti aftur snúið taflinu sér í vil. Um leið þjálfast framsýni því að ekki þýðir að sjá eftir mistökum sem hafa orðið á skákborðinu heldur verður að einblína á hvernig hægt sé að byggja upp stöðuna áfram og komast hratt og fljótt yfir eigin mistök. Þrautseigja við að leita lausna er einn af sígildum lærdómi skákarinnar. Félagsleg tengsl og samheldni Það sem vakið hefur hvað mesta eftirtekt í rannsóknum seinni tíma á áhrifum skáklistarinnar í skólastarfi er hversu vel skákin hefur reynst félagslega og þá sem samfélagslegt tæki innan veggja skólans. Skákiðkun leiðir þannig saman ólíka hópa krakka með mismunandi bakgrunn sem að öðrum kosti leiða jafnan ekki saman hesta sína.

Ýmsa aðra þætti má vitna í sem rannsakendur og þeir sem langa reynslu hafa af kennslu skákar í skólum erlendis telja að nýtist nemendum vel í ólíku námi. Sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/forsidumyndir/skyrsla-nefndar-um-skak.pdf

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira