logo
  • Samkennd -
  • Samvinna -
  • Heiðarleiki

Skipulag starfsins í grunnskóladeild 3. - 18. nóvember

02/11/20

Kæru foreldrar
Á morgun þriðjudag gengur í gildi ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Gildistími hennar er frá 3. - 18. nóvember. Reglugerðin hefur vægari áhrif á skólastarf yngri nemenda en við mátti búast (sjá hlekk á hana hér fyrir neðan).
Helstu atriði reglugerðarinnar eru að nú mega mest vera 50 börn í hverju sóttvarnarhólfi hjá börnum í 1. - 4. bekk en þar er ekki grímuskylda fyrir nemendur. Í 5. - 7. bekk mega mest vera 25 nemendur í hverju sóttvarnarhólfi og nemendur þurfa að bera grímur þar sem ekki er hægt að virða 2 m reglu milli nemenda. Mest mega vera 10 starfsmenn í hverju rými en þeir mega fara á milli hólfa.
Skóladagurinn verður með nokkuð eðlilegum hætti hjá 1. - 4. bekk í Helgafellsskóla. Þau mæta á venjulegum tíma og eru fullan skóladag auk frístundar, þau sem þar eru skráð. Helsta breytingin er að nú verður ekki boðið upp á ávaxtabita en nemendur þurfa að taka með sér morgunhressingu að heiman og svo síðdegishressingu ef þau eru í frístund. Matartímar fyrir alla árganga taka lengri tíma en venjulega þar sem ekki má blanda saman hópum í matsal svo mikilvægt er að þau borði góðan morgunmat heima og hafi með sér morgunhressingu.
Skóladagurinn hjá 5. - 7. bekk verður styttri en venjulega þar sem við þurfum að skipta öllum árgöngum í tvennt svo ekki verði fleiri en 25 nemendur í hverju sóttvarnarhólfi. Fyrri hópur hvers árgangs mætir kl. 8.10 - 11.10 og seinni hópurinn kl. 11.30 - 14.30. Umsjónarkennarar senda ykkur póst um hvort ykkar barn er í fyrri eða seinni hópnum. Ekki verður matur í matsal fyrir nemendur miðstigs en þau fá ávaxtahressingu á miðjum skóladegi. Flestar sérgreinar á miðstigi falla niður þessar tvær vikur. Ef nemendur eiga grímur heima þá biðjum við um að þeir komi með þær í skólann en ef ekki eru til grímur heima fá nemendur grímur í skólanum.

Eins og undanfarnar vikur biðjum við ykkur foreldra um að koma ekki inn í skólann og ef þið eruð að sækja börnin í frístund þá er símanúmer frístundar á hurðinni.

Ef eitthvað er óskýrt þá hikið ekki við að hafa samband.
Með bestu kveðju,
Rósa Ingvarsdóttir
skólastjóri

REGLUGERÐ um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira